Saturday, November 1, 2008

Nýjustu tíðindi úr Húsalindinni

Halló kæru lesendur hehehe ef einhver nennir að kíkja hér inn lengur, ég telst ekki vera duglegust að blogga, slæ allavegana Áddu frænku ekki við í blogg-dugnaði :S.

Undanfarnar vikur hefur verið nóg að gera þó ég hafi mest verið heima í veikindaleyfi. Já.... allir í vinnunni (eða nánast allir) halda að ég hafi verið heima út af bakveikindum og það er voðalega lítil lygi, ég fékk auðvitað í bakið á því að hanga svona heima.... en aðalástæðan var sú að við Siggi vorum enn að vinna í því að reyna að fjölga mannkyninu. Hver sem hefur hitt dásemdar börnin okkar skilur auðvitað að okkur langi til að búa til fleiri svona gullmola.
Í þetta skiptið vorum við búin með alla litlu frostpinnana okkar og því þurfti frúin í fulla glasafrjóvgunarmeðferð... meðferð sem tók 7-8 vikur í þetta skiptið og endaði ekkert sérstaklega vel... eða reyndar bara frekar illa :þ. Þessi meðferð tók heilmikið á, ég var hundlasin á tímabili en samt ekkert í líkingu við það þegar ég endaði inni á sjúkrahúsi eftir síðustu eggheimtu :S.
Aðal veikindin voru vegna þess að ég var með fullt fullt af helv... blöðrum sem tóku upp á því að springa á ólíklegustu tímum, eitt skiptið um miðja nótt og ég ældi nærri því af verkjum.

Þar sem læknanir fóru sér gífurlega varlega til að ég fengi ekki oförvun eins og síðast (sem var ástæðan fyrir sjúkrahúsferðinni þá) þá var árangurinn ekki eins mikill... síðast náðust 15 egg en nú bara 3 stykki.... og síðast frjóvguðust 10 egg en nú bara eitt... það var sett upp og 2 vikum síðar kom leiðindarniðurstaðan og því miður tókst þetta ekki....

En ég er hins vegar verulega lukkuleg þessa dagana þar sem vinkona mín af netinu var í meðferð á sama tíma og hún á von á barni :o) yndislegar fréttir finnst okkur.

Þar sem við Siggi erum enn saman eftir 11 ár og eigum þar að auki 2 börn saman þá telur íslenska ríkið okkur greinilega verulega gráðug að langa í fleiri börn og við fáum því enga niðurgreiðslu á meðferðir, og því kostar ein svona meðferð um 340 þúsund með lyfjakostnaði.... ef ég hins vegar myndi skilja við Sigga og jafnvel ná mér í mann sem ætti 10 börn þá fengjum við alveg hellings niðurgreiðslu frá ríkinu.... já svona er íslenskt þjóðfélag, gerir allt í að hvetja fólk til að skilja :S

Nú er bara málið að knúsa hvert annað og brosa út í heiminn.... er voða dugleg þessa dagana við að sniðganga leiðinlegar fréttir, reyni aðallega að lesa t.d. Fólk dálkinn á mbl.is til að fræðast um fræga fólkið frekar en kreppufréttir heheheh

Nú eigum við hjónin eftir að velta framhaldinu fyrir okkur.... erum við hætt að reyna eða ekki, sumpart hljómar það verulega vel að fara aldrei aftur á þessar helv.. sprautur og njóta lífsins með gullmolana okkar tvo en á hinn bóginn væri afskaplega spennandi að fá aftur að snúast í kringum lítinn hjálparlausan gullmola...
Þetta kemur allt í ljós með tíð og tíma....

Nú eigum við fjölskyldan eftir að halda upp á eitt afmæli í viðbót þetta árið og svo förum við í að undirbúa jólin.... 2 kríli á þessu heimili eru nú þegar orðin spennt fyrir því hehehe

Takk fyrir að fylgjast með hér og ég vona að enginn sé sár þó ég tjái mig lítið um meðferðir fyrr en þær eru búnar... það er bara ansi erfitt þegar margir eru að fylgjast með.... mun betra að vera búin að jafna sig smá áður en ég þarf að segja heiminum frá leiðindafréttunum :S

Heyrumst.... ætla að reyna að vera dugleg að blogga í nóvember... enda er það besti mánuðurinn hehehe
kv
Krizzza ofurkrílamamma

8 comments:

Anonymous said...

Æ æ æ elsku frænka góð. Þetta hafa verið sár vonbrigði fyrir ykkur. Það er lítið hægt að segja nema að þið megið vera þakklát fyrir börnin ykar, og að þið skulið hugsa um að etv. séu fleiri börn ekki eitthvað, sem skaparinn hafi ætlað að láta ykkur fá. Af hverju það er skiljum við stundum ekki fyrr en seinna. Mér var ekki ætlað nema að fá þessar tvær dætur mínar, og í dag er ég svo hamingjusöm með það. Hefðu þær verið fleiri, hefði ég ekki haft orku og tíma hvað þá peninga til að hugsa um þau. Og svo held ég að þessi tvö, sem ekki fengu að komast til okkar, séu verndarenglar og hugsi um systur sínar, einn engill á hvora. Af hverju þetta er svona og af hverju sumir fá allt, sem þeir óska sér er nokkuð, sem við skiljum ekki. En eitt er víst---þið eruð heppin að hafa fengið þessi tvö, sem þið eigið. Það eru sannarlega margir, sem aldrei fá að upplifa þá hamingju. Líttu björtum augum fram á veginn--svona eins og hin jákvæða frænka þín :) :) :). Saknaðarkveðjur þín Ádda frænka.

Anonymous said...

Getum lítið gert nema hugsa fallega til ykkar, getum varla gert okkur almennilega í hugarlund hvað þið hafið gegnið í gegnum, en sodan er livet. Alltaf hægt að skreppa norður ef ykkur vantar tilbreytingu, alltaf svo gaman hér.... hvar verður liðið um jólin, kemur enginn norður??
kv affí

Anonymous said...

Enn og aftur knúsiknús!

Og til hamingju með afmælið, aldeilis kósý í kaffinu hjá ykkur í gær. Heyrumst í dag,
kv. stóra systir

Anonymous said...

Elsku Kristín. Sendum okkar bestu kveðjur úr Mývatnssveitinni. Hugsum fallega til ykkar, skiljum vel hversu þetta hafa verið mikil vonbrigði. Þá er nú samt gott að geta knúsað stóru fjögurra ára, yndislegu krílin sín. Til hamingju með afmælisdaginn kæra frænka og enn og aftur allar góðar hugsanir frá okkur.
Þín frænka Fríða

Anonymous said...

Til hamingju með daginn, hva 34 ?? Bara barn ennþá. Eruð þið Sigurður virkilega búin að vera saman í 11ár? Kv affí

Anonymous said...

Æi leitt að heyra þessar fréttir. Ætli að ég verði ekki bara að taka undir með þeim hér á undan mér og biðja ykkur bara að knúsa Ingibjörgu og Þorlák enn fastar. Þið eruð svo sannarlega heppin að eiga þessi yndislegu börn.
Já og til hamingju með afmælið, loksins orðin stór:)
Kær kveðja úr Nesi

Anonymous said...

Innilega til hamingju með afmælið stóra syssss.
Já mér finnst lífið ansi ósanngjarnt þessa dagana gagnvart ykkur. svo mikið er víst. Hálf ansalegt að arka um með bumbu og þú með enga, það hefði verið alveg ótrúlega gaman og yndislegt ef við hefðum getað verið samferða í þetta skiptið. Kærar kveðjur, Malla syssss

Anonymous said...

Elsku Kristín! Innilega til hamingju með daginn :)

Leiðinlegt að heyra með niðustöðurnar. Ég veit að þið eruð ótrúlega þakklát fyrir tvíburayndin ykkar, enda ekki ástæða til annars, og þið verðið bara að knúsa þau í klessu á þessum erfiðu tímum. Þau eru sannkallaðar guðsgjafir :)
Þið munið svo komast að niðurstöðu um framhaldið og það munu allir styðja ykkur í hverju sem þið ákveðið.

Bestu kveðjur og riiiisa stórt knús til ykkar fallega fjölskylda

Anna Björg